Bakstur

Þriggja tegunda súkkulaðibitakökur með möndlum og kaffiÞað eiga margir sína tegund af súkkulaðibitakökum sem bakaðar eru fyrir hver jól á meðan aðrir leita í sífellu að hinni einu sönnu uppskrift og eru óhrædd við að prófa nýjar. Ég er líklega blanda af þessum tveimur týpum. Ég á mínar klassísku uppskriftir sem ég baka fyrir hver jól en vil samt halda áfram að þróa nýjar uppskriftir og prófa eitthvað nýtt. Þessi uppskrift er afrakstur þess síðarnefnda. Algerlega stórkostlegar smákökur sem hurfu hraðar ofan í fjölskyldumeðlimi en dögg fyrir sólu. Og skal engan undra. Í þeim er dágott magn af ljúffengu lífrænu súkkulaði. Við erum að tala um mjólkursúkkulaði með möndlum, hvítt súkkulaði með kókos og 70% súkkulaði. Til þess að ýta enn frekar undir súkkulaðibragðið er í þeim skyndikaffiduft. Kaffibragðið finnst varla (krakkarnir gerðu allavega engar athugasemdir) en gerir samt ótrúlega mikið fyrir heildar útkomuna. Stökkar að utan og mjúkar að innan. Ég lofa að þetta er uppskrift sem þið viljið geyma og baka aftur og aftur!
Bökuð marmara súkkulaðiostakaka með rjómakremiBakaðar ostakökur minna mig alltaf á Bandaríkin enda er töluvert algengara að ostakökur þar séu af þeirri gerðinni. Innihaldið er töluvert frábrugðið þeim sem við þekkjum kannski betur sem eru þá gjarnan með matarlími og án eggja. Bragðið er algerlega himneskt og áferðin silkimjúk. Súkkulaðikexið passar sérstaklega vel með fyllingunni og rjómakremið fullkomnar svo verkið. Það er hins vegar smávegis kúnst að baka svona ostakökur en ef nokkur atriði eru höfð í huga er það lítið sem ekkert mál. Passa þarf að nota smelluform sem er síðan klætt vel með plastfilmu og álpappír svo ekkert vatn komist inn í formið en best er að baka þær í vatnsbaði. Smá vesen en fullkomlega þess virði. Þær geymast nefnilega líka svo vel í kæli og ekkert mál að frysta þær.
Súkkulaði „Turtle“ kökurÞað má svo sannarlega bæði baka og borða yfir sig af smákökum í desember. „Turtle Cookies“ eru kökur sem innihalda karamellu og pekanhnetur, síðan eru útfærslurnar ýmiss konar!
Jólaleg eplakaka sem vermir hjörtuÞað er fátt jólalegra en epli og kanill en þetta samband hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér og mínum. Allra handa eplakökur eru fljótar að rjúka út á mínu heimili og þessi er engin undantekning. Þrátt fyrir að vera formkaka er hún dúnmjúk og kryddbragðið passar fullkomlega með eplunum. Það er nefnilega eplasafinn sem á stóran þátt í að gera hana mjúka og djúsí og gefur auðvitað ennþá betra eplabragð. Ég dustaði yfir hana flórsykri en því má auðvitað sleppa og setja jafnvel eitthvert krem en mér fannst hún bara svo góð svona eins og sér og ákvað að leyfa henni að njóta sín einni og sér.
Karamellu- og súkkulaði smákökurÞað styttist í jólin og það þýðir að smákökubaksturin er hafinn! Þessar kökur eru algjörlega ómótstæðilegar – bragðgóðar, stökkar, með dökku súkkulaði og ljúffengri Werther's söltuðum karamellu. Fullkomnar fyrir þennan árstíma!
Hrekkjavöku súkkulaðibitar með karamellupoppi og pretzelKaramellupopp er fullkomin blanda af sætu og söltu og passar sérlega vel með súkkulaði og pretzel. Þessar fljótlegu heimagerðu súkkulaðiplötur eru tilvaldar fyrir hrekkjavöku, og það er auðvelt að bæta við hvítu súkkulaði og augum til að gera litla drauga!
Bananamúffur með kanil, karamellu og pekanhnetumÁ mínu heimili er allt bakkelsi sem inniheldur banana sívinsælt og klárast jafnan samstundis. Þessar múffur eru engin undantekning og kláruðust á augabragði. Kanillinn og pekanhneturnar gefa þeim aðeins haustlegan blæ og það er algjör lúxus að toppa þær síðan með karamellunni. Ég nota kókosolíu í þær en það kemur bara örlítill kókoskeimur af henni sem mér finnst passa svo vel með bananabakstri. Og eins og með flest bakkelsi frystast þær mjög vel. Ég mæli þá með því að setja karamelluna ofan á þegar á að bera þær fram. Það er auðvitað hægt skipta hnetunum út fyrir aðra tegund en pekanhnetur hafa alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér.
Ofureinföld súkkulaðihorn með söxuðum heslihnetum dökku súkkulaðiÞessi horn eru ótrúlega gómsæt, einföld og vegan ‏þar að auki. Það eru einungis örfá hráefni sem ‏þarf einmitt ‏þannig að það sé gott að eiga þau til og skella í hornin ef gesti bera að garði. Nú eða ef þið vilja útbúa eitthvað sérlega gómsætt í brönsinn eða afmælisveisluna. Bionella súkkulaðismjörið frá Rapunzel hentar alveg fullkomlega í fyllinguna, með ‏því helst hún mjúk en lekur þó ekki úr hornunum við baksturinn.
Dásamleg mokkakaka með þeyttri núggatmúsÞessi súkkulaðikaka er alveg ótrúlega einföld og tekur stuttan tíma að gera. Botninn er mjúkur með góðu súkkulaði og kaffibragði og kremið er algjör leikbreytir! Núggatmúsin er algjör dásemd og myndi líka koma vel út ein og sér í litlum skálum. Ég mæli líka með að prófa að setja deigið í möffinsform og gera bollakökur!
Espresso bananakaka með vanillu, kanil og kaffikremiKökur með kaffibragði eru bestar og ég reyni að troða kaffi í helst sem flest. Gott og vel, smá ýkjur en ég er mjög hrifin af öllu sem kaffibragð er af. Þessi blanda, bananar, vanilla, kanill og kaffi hljómar eins og eitthvað sem gæti alls ekki passað saman en því fer fjarri. Þetta er þvert á móti stórkostleg blanda sem ég mæli með að þið prófið. Kakan sjálf er mjög mjúk en aðeins þétt í sér. Kremið er síðan svo ólýsanlega gott að ég ætla ekki að reyna það. Aðferðin við það er aðeins öðruvísi en við eigum að venjast en passar svo vel með kökunni. Og líklega flestum kökum ef því er að skipta.
Allra besta heimabakaða fjölkornabrauðiðÞetta brauð baka ég mjög reglulega og hef gert í meira en áratug. Það er svo dásamlega einfalt, bragðgott og saðsamt. Það tekur enga stund að skella í það og smakkast dásamlega volgt með smjöri og osti eða bragðmiklum hummus. Ég nota allskonar fræ sem mér þykja góð í brauðið og heslihneturnar og kókosinn gefa virkilega gott bragð. Ég rista heslihneturnar áður en það er ekki nauðsynlegt. Svo má auðvitað sleppa þeim ef ofnæmi er til staðar t.d. Uppskriftin gæti svo hæglega verið vegan, eina sem þarf þá að gera er að skipta hunanginu út fyrir hlynsíróp. Ég mæli ekki með því að sleppa sætunni því hún ýtir einhvern veginn undir bragðið af öllum fræjunum og hnetunum. Upphaflega var þetta uppskriftin af „Gló brauðinu“ en uppskriftin hefur þróast mikið þó grunnurinn sé alltaf hinn sami
Guðdómleg gulrótarkaka með ristuðum pekanhnetum og rúsínumGulrótarkökur hafa alltaf verið í uppáhaldi hjá mér og þessi uppskrift er ein af mínum uppáhalds. Ég veit í sannleika sagt ekki af hverju ég hef ekki sett hana fyrr á síðuna en hún klárast alltaf upp til agna og er í miklu uppáhaldi hjá fleirum en mér. Í þessari er hellings næring og aðeins minni sykur en í þeim mörgum. Kókosolían frá Rapunzel er bragðlaus og frábær í bakstur eins og þessa köku. Ég nota einnig hafrahveiti á móti venjulegu hveiti en það gefur mjög gott bragð. Hafrarnir gera hana aðeins lausari í sér en hún er vel djúsí svo það kemur ekki að sök. Hún er svo toppuð með allra besta rjómaostakreminu og söxuðum pekanhnetum.
Algjörlega truflaðar heslihnetu brownies með súkkulaðismjöriÉg veit hreinlega ekki hvaða lýsingarorð eru nógu sterk til þess að lýsa þessum brownies. Aldrei í lífinu hef ég smakkað þær betri og heimilisfólkið var mér svo sannarlega sammála. Þær eru með góðu djúpu súkkulaðibragði en bragðið af súkkulaðismjörinu og núggatinu í súkkulaðinu skín í gegn. Ristaðar heslihneturnar færa þær svo upp á eitthvað stig sem ég vissi varla að væri til. Það tekur smá tíma að nostra við þær, rista hneturnar og svona en það er fullkomlega þess virði. Þær eru „fudgy“, smá blautar í miðjunni en með stökkum toppi. Fullkomnar í helgarkaffitímann!
Páskasmákökur

Þessar eru æði! Ekki nóg með það að vera fullar af mini eggs þá eru þær líka fylltar með súkkulaðismjöri sem gerir þær extra djúsí. Þær eru fullkomnar í páska baksturinn, skemmtilegt að gera þær með börnum og frábært að bjóða upp á nýbakaðar smákökur í bröns eða kaffitíma.

Heitar krossbollur með kanil, vanillu og dökku súkkulaðiHot cross buns eða heitar krossbollur eru bakaðar víða um heim um páskana og yfirleitt þá á föstudaginn langa. Þær koma í allskonar útfærslum, algengt er að þær innihaldi rúsínur, sultaða ávexti, appelsínubörk, súkkulaði eða hnetur. Þær tengjast bæði í kristni en einnig í heiðinn sið. Krossinn getur táknað kross Krists og vísað þannig í krossfestinguna. Í heiðnum sið táknar krossinn fjögur kvartilaskipti tunglsins og eru bollurnar fórn til gyðjunnar Eostre sem er gyðja vors og dögunar. Þessar eru í vegan útgáfu með dökku súkkulaði, kanil og ekta vanillukornum. Þær passa sérlega vel í páskabrönsinn eða páskakaffið. Hægt er að leika sér endalaust með uppskriftina, setja rúsínur til móts við súkkulaðið, sleppa kanil og setja rifinn appelsínubörk osfrv. Þær passar mjög vel í páskabrönsinn eða páskakaffið og eru bestar ylvolgar með smjöri.
1 2 3 4 25