Elsku pabbi minn á afmæli í dag og í tilefni dagsins deili ég með ykkur uppskrift af nammikúlunum hans.
Pabbi er mögulega mesti sælkeri sem ég þekki en hefur nú gert rosalega breytingu á sínum matarvenjum síðustu mánuði. Hlakka til að segja ykkur meira frá því og hversu magnaða hluti hann hefur upplifað í kjölfarið. Sælkerinn blundar alltaf í honum svo hann fór að búa sér til hollar lífrænar nammikúlur til að hafa með sér í vinnuna og til að bjóða barnabörnunum og vinum uppá.
Pabbi hélt fyrirlestur um daginn í lífspekifélaginu og eftir fyrirlesturinn bauð hann gestum uppá þessar dásamlega góðu kúlur sem hann kallar Kosmoskúlur. Kúlurnar kláruðust hratt(!) og ég hef fengið leyfi til að deila uppskriftinni með ykkur…. eða við skulum segja að þetta sé svona sirka uppskriftin, hann er ekki mikið í því að mæla hráefnið og slumpar í hvert sinn. Eftir að hafa giskað mig áfram eftir ónákvæmum en mjög ástríðufullum útskýringum og að lokum gert smakk samanburð þá held ég að við séum komin nokkuð nálægt réttu hlutföllunum til að geta kallað þetta pabbakúlur.
Minni ykkur á að pabbi er sælkeri og þær eru svo sannarlega dísætar!
Við pabbi unnum færsluna í samstarfi við Rapunzel á íslandi en við erum sammála um að lífræni kókosinn frá Rapunzel er lang skemmtilegastur til að rúlla kúlum uppúr því hann er svo fínn.