Ég elska svona fallnar kökur sem eru fallega ljótar, því oft eru þær einfaldlega bestar. Hér er ég með eina dásamlega góða köku sem er í senn einföld en afar ljúffeng, svona kaka kallast oft torte á ensku en þá er verið að vísa til fallinnar súkkulaðiköku. Yfirleitt viljum við ekki að kökurnar okkar falli eftir bakstur en í þessu tilfelli er það akkurat það sem við viljum. Ef ég ætti að líkja henni við einhverja sérstaka köku þá held ég að þessi sé mjög skyld franskri súkkulaðiköku, nema þessi er hveitilaus og eins og með þá frönsku er hún best með rjóma. Eins og ég sagði er kakan hveitilaus en í hana notaði ég möndlumjöl í stað hveitis sem gefur smá svona eins og marsípanáferð á hana, en samt bragðast hún ekki eins og marsípan. Kakan er best borin fram heit en hún er í senn stökk að utan og blaut og klístruð að innan eins og blanda af franskri súkkulaðiköku og kladdaköku. Í staðinn fyrir smjör notaði ég kókósmöndlusmjörið frá Rapunzel en það er í miklu uppáhaldi hjá mér enda ekki bara hollt heldur einnig mjög bragðgott. Ég mæli með að þú hendir í þessa köku en með henni bar ég fram Oatly þeyttan rjóma og toppaði svo allt heila klabbið með döðlusírópinu frá Rapunzel. Þetta var hin fullkomna þrenna!