Falafel er eitthvað sem flestir þekkja og hafa smakkað. Falafel eru bollur úr kjúklingabaunum sem eru einar af mínum uppáhaldsbaunum. Fyrir einhverjum mánuðum fór ég að leita leiða til að spara í mat og það að elda úr baunum er sennilega besta sparnaðartipsið sem ég get gefið ykkur þegar það kemur að því að eyða minna í mat án þess að það komi niður á gæði næringar.
Ég fór að leggja kjúklingabaunir í bleyti og óvart varð til vikuleg rútína sem sparaði okkur matarkostnað, einfaldaði lífið og á sama tíma skapaði tilhlökkun hjá bragðlaukunum.
Ég legg 500gr af þurrum kjúklingabaunum í bleyti og nota hluta af þeim til að búa til falafel, restina síð ég og nota þá hluta fyrir hummus og svo verður yfirleitt afgangur en það er breytilegt hvað verður úr þeim. Stundum geymi ég afgangsbaunirnar til að steikja á pönnu og toppa salat eða súpur með, stundum geri ég kjúklingabaunasalat sem er vinsælt í nestissamlokur í skólann, en þær hafa líka ratað í orkukúlur sem var alls ekki vitlaus hugmynd. Við hreinlega elskum kjúklingabaunir og möguleikana sem þær bjóða uppá.
Uppskriftin geriri ráð fyrir að þið eigið matvinnsluvél.