Kasjúsostar urðu að hálfgerðu áhugamáli rétt fyrir jólin en ég hef verið að leika mér að gera stinna osta til að setja á ostabakkan. Mig langaði að útbúa uppskrift sem væri einföld úr einföldum hráefnum og ekki alltof tímafrek, eða kallaði á margra daga bið í gerjun. Það eru til svoleiðis ostar líka en ég þekki mig, ég er ekkert alltof mikið að skipuleggja langt fram í tímann og straxveikin er fljót að kikka inn ef mig langar í eitthvað.
Ég komst þó ekki upp með að stytta ferlið nema niður í rúman sólarhring til að ná súra bragðinu frá gerjuninni. Til að starta og flýta fyrir gerjuninni gríp ég í góðvini mína og góðgerlana frá Probi Original. Algjörlega hlutlausir á bragðið og þægilegir í notkun.
Eftir nokkrar tilraunir og margar kasjúhnetur,… þá er ég ótrúlega ánægð með þennan kasjúost sem hvarf vel ofan í afa og ömmur, vinkonur, krakka og pabba þeirra. Broddkúmenið (cumin) og zaatar gerir ostinn líka að annarskonar upplifun sem kemur á óvart.
Ath uppskriftin gerir 2 vænar ostakúlur og auðvitað er hægt að helminga uppskriftina fyrir bara eina kúlu. Persónulega fannst mér blenderinn minn þó ná skemmtilegri áferð þegar ég gerði uppskriftina stærri og svo er líka bara hundleiðinlegt að gera bara eina kúlu þegar þú getur gert tvær. Fullkomið að prófa þessa uppskrift fyrir helgina og bjóða vinum í kósíkvöld.