Indverskur matur hefur verið í uppáhaldi hjá okkur fjölskyldunni um árabil. Hvort sem við styttum okkur leið með góðum tilbúnum sósum eða gerum allt frá grunni skiptir okkur ekki öllu máli. Hérna blanda ég saman þessum tveimur leiðum. Ég gerði marineringuna frá grunni, naan brauðið og raita jógúrtsósuna en sósan sem lambakjötið fer í er keypt tilbúin. Ég bragðbætti hana örlítið eftir eigin smekk en þess þarf auðvitað ekkert, en það er svo skemmtilegt. Það má allt!
Lambakjötið er úrbeinað læri sem ég skar síðan í bita og marineraði í jógúrtmarineringu. Þræddi bitana upp á spjót og grillaði. Setti sósuna í pott og bragðbætti örlítið og setti tilbúið lambakjötið í sósuna. Naan brauðið er það allra besta með þessum rétti og saffran grjónin og jógúrt sósan setja punktinn yfir i-ið.