Salat með sólþurrkuðum tómötum, ólífum og engifer-tahinidressingu

Salat með sólþurrkuðum tómötum, ólífum og engifer-tahinidressingu

Hér erum við með salat með grænum ólífum, sólþurrkuðum tómötum og rauðlauk sem mér finnst passa svo vel saman og tahinisósan fer rosalega vel með ólífunum. Ég er að nota lífrænar ólífur frá Rapunzel en ég er mikil ólífukona og börnin mín elska ólífur og við erum öll sammála um að þetta séu langbestu grænu ólífurnar. Uppskriftin dugir mér í 3 fullar auðmeltanlegar máltíðir en salatið virkar alveg jafn vel sem meðlæti ef maður kýs það frekar. Ég heyri alltof oft niðrandi orð um salat. Salat dettur inn í flokkinn “kanínufóður” eða einhverskonar megrunarkúr. Veganar borða bara salat heyrir maður stundum í þeim tón eins og það væri slæmt. Ég skal leiðrétta það að allir veganar borða ekki bara salat en það þyrfti þó ekki að vera slæmt að borða bara salat,… þ.e.a.s ef það er alvöru salat ;). Það súrealíska er að veganar eru þeir sem geta sjaldnast fengið alvöru salat á veitingastöðum. Vegan hamborgari er svona meiri klassík á vegan matseðlinum.

Gott salat fyrir mér er salat sem uppfyllir skilyrðin um fjölbreytt bragð, áferð og fyllingu. Ég vil finna súrt, sætt og salt bragð, ég vil finna fyrir mjúkri og crunchy áferð og góð dressing er mikilvæg. Svo vil ég líka geta orðið södd af því svo það má vera bara frekar stórt. Það sem kannski er vanmetið en mér finnst líka mjög mikilvægt er að það sé fallegt og litríkt. Við höfum heyrt orðatiltækið að við borðum með augunum og það er bara hellingssannleikur í því. Við fáum vatn í munninn við það að sjá eitthvað girnilegt og er það augunum að þakka, augun senda skilaboð til heilans að máltíð sé í vændum og munnvatnsframleiðslan hefst sem er fyrsta stig meltingarinnar. Mæli með að prófa þetta meðvitað og athuga hvað þú upplifir.

Read more

Jólalegt brokkólísalat með rauðkáli og trönuberjum

Jólalegt brokkólísalat með rauðkáli og trönuberjum

Jólalegt brokkólísalat. Mögulega eru það trönuberin sem gera það jólalegt … og grænu liturinn í brokkólíinu. Rauðkál er líka svolítið hátíðlegt grænmeti er það ekki? Þetta er allavega einstaklega ferskt og fallegt salat með vott af hátíðlegu bragði sem passar ofboðslega vel með jólamatnum sem stundum getur verið þungur og saltur. Þetta salat er auðvitað gott allan ársins hring en einhvernegin höfum við verið að tengja það við jólin síðustu ár.

Read more

Grænt salat með steiktum kjúklingabaunum

Grænt salat með steiktum kjúklingabaunum

Baunir úr dós er svo handhægur og fljótlegur próteingjafi. Ég er með æði fyrir lífrænum kjúklingabaunum núna og mér finnst svo gott að steikja þær í smá stund á pönnu með kryddum til að setja útá stórt og gott salat og þar með gera það matmeira og næringaríkara. Þú getur í raun notað hvaða krydd eða kryddblöndur sem er. Ég er að dýrka tilbúnu kryddblöndurnar frá Kryddhúsinu, að þessu sinni valdi ég miðausturlenska kryddblöndu sem mér finnst passa einstaklega vel með fersku tahinisósunni. Baunir innihalda ekki bara prótein heldur einnig vítamín, steinefni og trefjar, sannkölluð “all in one” fæða. Ég myndi einnig segja að lífrænar baunir úr dós séu hinn fullkomni skyndibiti fyrir litlu krílin. Fyrir utan hvað þær eru hollar og góðar eru þær líka skemmtilegar fyrir litla putta.

Read more

Poke skál með marineruðum laxi, edamame baunum og chili mæjó

Poke skál með marineruðum laxi, edamame baunum og chili mæjó

Poke skálar eru upprunalega frá Hawaii en þær eiga það til að blandast saman við japanska matargerð líkt og sushi. Poke er í raun hrár fiskur skorinn í bita og maríneraður en það þekkist einnig að hafa annað prótín í skálunum. Það er hægt að setja saman sína skál eftir eigin hentisemi og þetta er mín útgáfa sem ég deili með ykkur. Sítrónusafinn í maríneringunni veldur því að laxinn eldast í rauninni án þess að nota hita líkt og við ceviche gerð. Það er smá dútl í kringum þetta en sannarlega þess virði.

Read more

Vegan ostasalat

Vegan ostasalat

Ostasalöt eru oft vinsæl á veisluborði. Um helgina var haldið uppá 90 ára afmæli hjá ömmu minni og kom öll fjölskyldan saman, allir hennar 36 afkomendur, makar og tengdafjölskylda. Amma sjálf hefur alltaf verið þekkt fyrir að sýna ást sína með mat og enginn kemur í heimsókn til hennar nema fara þaðan pakksaddur. Afkomendurnir hafa svolítið erft þetta frá henni og var veislan því einhverskonar pálínuboð á sterum. Í síðustu viku ákvað ég að prófa mig áfram með vegan útgáfu af klassísku ostasalati og mér fannst það heppnast svo vel að það fékk að koma með í veisluna hennar ömmu.

Read more