Það er bara komið að því, haustið handan við hornið, skólarnir að byrja og rútínan að taka við. Einhverjir dusta rykið af löngu gleymdum áramótaheitum og vetrarmaturinn fer hægt og rólega að taka yfir létt salöt og grillrétti.
Pottréttir eins og þessi eru í algjöru uppáhaldi hjá mér. Ekki bara af því að hann er ótrúlega bragðgóður og eldar sig næstum sjálfur, heldur er þetta alveg ótrúlega ódýr réttur, næringarríkur og passar akkúrat inn í kjötlausu dagana þar sem hann er vegan. Ég tók reyndar saman hvað innihaldsefnin gætu kostað og í allan réttinn gæti það verið um 1500 krónur og þá er ennþá afgangur af nokkrum innihaldsefnum. Mér reiknast til að skammtarnir séu um 8 og er þetta því líklega með hagkvæmustu kostum sem hægt er að bjóða upp á í kvöldmat. Að auki frystist hann mjög vel og upplagt að setja afganga í frysti og taka síðar með í nesti.