Bakaðar ostakökur minna mig alltaf á Bandaríkin enda er töluvert algengara að ostakökur þar séu af þeirri gerðinni. Innihaldið er töluvert frábrugðið þeim sem við þekkjum kannski betur sem eru þá gjarnan með matarlími og án eggja.
Bragðið er algerlega himneskt og áferðin silkimjúk. Súkkulaðikexið passar sérstaklega vel með fyllingunni og rjómakremið fullkomnar svo verkið.
Það er hins vegar smávegis kúnst að baka svona ostakökur en ef nokkur atriði eru höfð í huga er það lítið sem ekkert mál. Passa þarf að nota smelluform sem er síðan klætt vel með plastfilmu og álpappír svo ekkert vatn komist inn í formið en best er að baka þær í vatnsbaði. Smá vesen en fullkomlega þess virði. Þær geymast nefnilega líka svo vel í kæli og ekkert mál að frysta þær.