Möndlu- og kókoskökur

Þessari langaði mig að deila fyrir jól því þessar voru oft bakaðar í desember …. þangað til möndlumjölið varð uppselt ALLS staðar. Ég vildi ekki gera ykkur það að deila jafn skemmtilegri uppskrift þegar hráefnið væri ófinnanlegt á landinu.

Uppskriftin myndi teljast til hollari smákaka, er glútenlaus og laus við hvítan sykur. Hún nýtur sín kannski bara betur í mars. Möndlumjölið er allavega til núna. Þær eru ekki ofursætar en gefa þér alveg þessa “smáköku” tilfinningu. Stökkar að utan og “tjúí” að innan.

Skoða nánar
 

Bragðmiklir orkuklattar með dökku súkkulaði og kókos-& möndlusmjö

Ef þið farið í göngur, skíðaferðir eða stundið útivist sem útheimtir mikla orku þá er þetta fullkomið nesti fyrir ykkur! Nú eða bara ef þið eruð eins og ég, elskið hreinlega hvers kyns granóla stykki eða klatta sem pakkaðir eru af allskonar gúmmelaði og góðri næringu.

Þessir klattar eru svo hrikalega góðir og einfaldir, innihalda náttúrulega sætu og eru auk þess vegan! Mitt allra uppáhalds, kókos- og möndlusmjörið frá Rapunzel gefur einstakt bragð og heldur þessu öllu saman ásamt banananum. Klattana er auðveldlega hægt að frysta og taka út eftir þörfum og svo er líka hægt að skipta út fræjunum fyrir aðra tegund eða möndlunum út fyrir aðrar hnetur eða jafnvel sleppa þeim og auka magn af öðru í staðinn. Þessa uppskrift er hægt að leika sér endalaust með!

Skoða nánar
 

Þriggja tegunda súkkulaðibitakökur með möndlum og kaffi

Það eiga margir sína tegund af súkkulaðibitakökum sem bakaðar eru fyrir hver jól á meðan aðrir leita í sífellu að hinni einu sönnu uppskrift og eru óhrædd við að prófa nýjar. Ég er líklega blanda af þessum tveimur týpum. Ég á mínar klassísku uppskriftir sem ég baka fyrir hver jól en vil samt halda áfram að þróa nýjar uppskriftir og prófa eitthvað nýtt. Þessi uppskrift er afrakstur þess síðarnefnda. Algerlega stórkostlegar smákökur sem hurfu hraðar ofan í fjölskyldumeðlimi en dögg fyrir sólu.
Og skal engan undra. Í þeim er dágott magn af ljúffengu lífrænu súkkulaði. Við erum að tala um mjólkursúkkulaði með möndlum, hvítt súkkulaði með kókos og 70% súkkulaði. Til þess að ýta enn frekar undir súkkulaðibragðið er í þeim skyndikaffiduft. Kaffibragðið finnst varla (krakkarnir gerðu allavega engar athugasemdir) en gerir samt ótrúlega mikið fyrir heildar útkomuna. Stökkar að utan og mjúkar að innan. Ég lofa að þetta er uppskrift sem þið viljið geyma og baka aftur og aftur!

Skoða nánar
 

Bökuð marmara súkkulaðiostakaka með rjómakremi

Bakaðar ostakökur minna mig alltaf á Bandaríkin enda er töluvert algengara að ostakökur þar séu af þeirri gerðinni. Innihaldið er töluvert frábrugðið þeim sem við þekkjum kannski betur sem eru þá gjarnan með matarlími og án eggja.
Bragðið er algerlega himneskt og áferðin silkimjúk. Súkkulaðikexið passar sérstaklega vel með fyllingunni og rjómakremið fullkomnar svo verkið.
Það er hins vegar smávegis kúnst að baka svona ostakökur en ef nokkur atriði eru höfð í huga er það lítið sem ekkert mál. Passa þarf að nota smelluform sem er síðan klætt vel með plastfilmu og álpappír svo ekkert vatn komist inn í formið en best er að baka þær í vatnsbaði. Smá vesen en fullkomlega þess virði. Þær geymast nefnilega líka svo vel í kæli og ekkert mál að frysta þær.

Skoða nánar
 

Súkkulaði „Turtle“ kökur

Það má svo sannarlega bæði baka og borða yfir sig af smákökum í desember. „Turtle Cookies“ eru kökur sem innihalda karamellu og pekanhnetur, síðan eru útfærslurnar ýmiss konar!

Skoða nánar