Á mínu heimili er allt bakkelsi sem inniheldur banana sívinsælt og klárast jafnan samstundis. Þessar múffur eru engin undantekning og kláruðust á augabragði. Kanillinn og pekanhneturnar gefa þeim aðeins haustlegan blæ og það er algjör lúxus að toppa þær síðan með karamellunni.
Ég nota kókosolíu í þær en það kemur bara örlítill kókoskeimur af henni sem mér finnst passa svo vel með bananabakstri. Og eins og með flest bakkelsi frystast þær mjög vel. Ég mæli þá með því að setja karamelluna ofan á þegar á að bera þær fram. Það er auðvitað hægt skipta hnetunum út fyrir aðra tegund en pekanhnetur hafa alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér.
