“Hún er geðveik mamma, þú verður að gera uppskrift af henni” voru orð sonar míns þegar hann fékk þessa með kvöldmatnum. Hefði ekki getað óskað mér betri viðbrögð enda eru börn bestu dómararnir. Hreinskilin og kröfuhörð.
Þetta er sveppasósa sem er létt í sér og minnir á gravy. Hún er að mestu lífræn, fyrir utan sveppina sem ég fann ekki lífræna, án aukaefna og glútenlaus. Passar vel með hnetusteik, með grænmetisbuffi, kartöflumúsinni… og ef þú spyrð krakkana mína þá má borða hana eintóma.
Hveiti er oft notað í sósur til að þykkja þær en hér nota ég kjúklingabaunamjöl sem inniheldur ekki glúten en virkar eins til þykkingar. Mörgum til mikillar gleði bætir það líka próteini í sósuna.