Það er fátt jólalegra en epli og kanill en þetta samband hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér og mínum. Allra handa eplakökur eru fljótar að rjúka út á mínu heimili og þessi er engin undantekning. Þrátt fyrir að vera formkaka er hún dúnmjúk og kryddbragðið passar fullkomlega með eplunum. Það er nefnilega eplasafinn sem á stóran þátt í að gera hana mjúka og djúsí og gefur auðvitað ennþá betra eplabragð. Ég dustaði yfir hana flórsykri en því má auðvitað sleppa og setja jafnvel eitthvert krem en mér fannst hún bara svo góð svona eins og sér og ákvað að leyfa henni að njóta sín einni og sér.