Print Options:








Toblerone brúðarterta

Magn1 skammtur

Stórglæsileg og tignarleg Toblerone brúðarterta.

Botnar
 12 stór egg
 500 g sykur
 2 msk. vanillusykur
 280 g hveiti
 3 stærðir af smelluformum, 18, 24 og 30 sm í þvermál
Dökk Toblerone súkkulaðifylling
 8 matarlímsblöð
 500 g Toblerone
 7 dl rjómi
 75 g flórsykur, eða eftir smekk
Hvítt Toblerone súkkulaðikrem
 500 g hvítt Toblerone
 7 dl rjómi
 100 g flórsykur, eða eftir smekk
 7 matarlímsblöð
Hjúpur
 750 g Cote d’Or súkkulaði
 8 msk. bragðmild olía
1

Tertuna má skreyta á ýmsan hátt. Einfaldast og oft fallegast er að skreyta hana með lifandi blómum eins og hér er gert en einnig mætti búa til marsípanrósir eða aðrar slíkar skreytingar, eða skreyta hana með t.d. konfektmolum eða súkkulaðiskreytingum.

2

Best er að skipta deiginu í tvennt, eða öllu heldur laga það í tveimur skömmtum, og baka fyrst minnsta og næstminnsta botninn og hræra svo í stóra botninn og baka hann. Hitið ofninn í 180°C. Brjótið 6 egg í hrærivélarskál, bætið við 250 g af sykri og 1 msk. af vanillusykri, og þeytið mjög vel, þar til deigið er létt, loftkennt og ljósgult að lit. Smyrjið á meðan 18 sm og 24 sm smelluformin vel og klippið út bökunarpappírshring sem passar á botninn. Sigtið 140 g af hveiti yfir eggjahræruna og blandið varlega saman með sleikju. Hellið í formin, setjið strax í ofninn og bakið í um 25 mínútur, eða þar til botnarnir hafa lyft sér vel, eru svampkenndir og eru farnir að losna frá börmum formsins. Látið kólna smástund í formunum og hvolfið botnunum síðan á grind og látið kólna alveg. Hrærið annað deig úr afganginum af hráefninu, hellið í stóra formið og bakið. Þegar allir botnarnir eru orðnir kaldir er hver þeirra klofinn í þrjú lög. Ef botnarnir eru kúptir að ofan er best að skera ofan af þeim og slétta yfirborðið. Neðsta lagið sett í hreint smelluformið sem hann passar í og hringurinn spenntur utan um. Dökku súkkulaðifyllingunni skipt á botnana, næsti botn lagður ofan á og þrýst dálítið niður – þó ekki of fast – og síðan er ljósu fyllingunni hellt þar ofan á og þriðji botninn lagður ofan á hana. Plastfilma breidd yfir og sett í kæli, helst til næsta dags. Þá er hnífsblaði, bleyttu í vatni, rennt meðfram hringforminu til að losa það frá tertunni og það síðan tekið utan af og kanturinn sléttaður vel með blautu hnífsblaði. Hver terta um sig er svo sett á grind (best að hafa botninn úr forminu eða aðra kringlótta plötu undir svo að auðveldara verði að færa terturnar og stafla þeim upp) og bökunarpappírsörk lögð undir grindina til að taka við umframsúkkulaði. Bráðnu súkkulaði, blönduðu olíu, er svo hellt yfir terturnar, yfirborðið sléttað og súkkulaðið látið leka jafnt niður með hliðunum. Látið stífna. Neðsta tertan er svo sett á stórt fat, sú næsta sett þar ofan á og þriðja tertan efst. Samskeytin e.t.v. löguð og jöfnuð með bráðnu súkkulaði sem best er að setja í.

Dökk Toblerone súkkulaðifylling
3

E.t.v. er best að búa aðeins til hálfan skammt af fyllingunni í einu og nota annan helminginn á stóra botninn og hinn á hina tvo. Byrjið á að leggja matarlímsblöðin í bleyti í kalt vatn. Bræðið súkkulaðið gætilega í vatnsbaði. Notið ekki örbylgjuofn. Bræðið matarlímið í dl af rjómanum en þeytið afganginn af rjómanum uns hann er nærri stífur. Þeytið flórsykri saman við og síðan súkkulaðinu, og hrærið að lokum matarlímsrjómanum saman við. Skiptið fyllingunni á tertubotnana og sléttið.

Hvítt Toblerone súkkulaðikrem
4

Farið að alveg eins og við dökku fyllinguna.

Hjúpur
5

Bræðið súkkulaðið gætilega í vatnsbaði eða örbylgjuofni. Líklega er best að bræða ekki meira í einu en það sem þarf til að þekja hvern botn um sig – um 375 g og 4 msk. af olíu fyrir stærsta botninn, um 225 g og 2 1/2 msk. af olíu fyrir þann í miðið og um 150 g af súkkulaði og 1 1/2 msk. af olíu fyrir minnsta botninn.