Sykurlaust eplapæ borið fram með óþeyttum vegan rjóma. Þetta pæ hefur þónokkrum sinnum komið með í picnic í góðu veðri. Útivera er bara svo miklu skemmtilegri með gott nesti. Uppskriftin passar í stærri gerðina af glernestisboxunum úr ikea sem mega fara í ofn. Það er því auðvelt að grípa það með sér beint úr ofninum með því að smella lokinu á og setja í nestistösku. Það má auðvitað líka borða þetta inni í kósí.
Nokkrar döðlur, bakaður kókos og eplin sjálf eru svo náttúrulega sæt að þetta pæ getur svo sannarlega fullnægt allri sykurlöngun og hentar vel fyrir litla og stóra munna.
Byrjið á að hita ofninn í 175°C
Brytjið eplin smátt og dreifið kanil yfir þau ásamt 5-10g af mjúku eða bráðnuðu smjörlíki og blandð vel.
Setjið eplin í eldfast mót og komið fyrir inní ofni á meðan þið útbúið haframulninginn, eða u.þ.b 5 mínútur.
Útbúið haframulninginn með því að byrja á að steinhreinsa döðlurnar og setja svo hafra, kókos, döðlur, smjörlíki og salt í matvinnsluvél. Blandið öllu vel saman.
Ath. einnig er hægt að saxa döðlurnar smátt og blanda öllu saman með gaffli/höndunum ef þú hefur ekki aðgang að matvinnsluvél.
Setjið haframulninginn ofan á eplin og bakið í ofni á 175°C í 20 mínútur.
Berið fram með óþeyttum eða þeyttum vegan þeytirjóma, ég kýs Oatly VISP.
0 fyrir hvað marga, hvað mörg stykki