Ég mæli með að pressa tófúið áður. Tófú er pressað með því að vefja það inní klút og leggja eitthvað þungt ofan á. Þyngdin pressar óþarfa vökva úr tófúinu og klúturinn dregur vökvann í sig. Það er ágætt að pressa tófúið í klukkustund en mér finnst oftast best að gera þetta kvöldinu áður. Það er líka hægt að nota tófúpressu.
Byrjið á að útbúa marineringu fyrir tófúið með því að blanda saman chipotle paste-i, vatni, olíu og sojasósu í skál. Skerið tófúið í litla teninga og komið fyrir í nestistboxi.
Hellið marineringunni yfir tófúið, lokið nestisboxinu og hristið til svo marineringin þeki alla tófúteningana. Leyfið tófúinu að marinerast í amk 30 mínútur.
Saxið niður íssalatið, grænmetið og kóríanderinn og komið fyrir í stórri skál ásamt maísbaununum. Pressið safa úr ½ lime yfir og blandið vel.
Tófúið (og marineringin) er svo steikt á pönnu í smá olíu þar til teningarnir eru farnir að brúnast og fá smá skorpu, þá ætti pannan að vera orðin nokkuð þurr. Tekur u.þ.b. 15 mínútur.
Dressingin er svo útbúin með því að blanda öllu saman sem í hana fer með töfrasprota eða litlum blender.