Það er fátt sem toppar góðan kjúklingarétt sem ilmar af ferskum kryddjurtum. Þessi réttur sameinar safaríkan kjúkling með ilm af rósmaríni, sætar kartöflur og silkimjúka sveppasósu sem fullkomnar máltíðina.
Stillið ofninn á 180°C með blæstri
Skerið sæta kartöflu í bita og veltið upp úr olíu og salti. Dreifið yfir ofnplötu með bökunarpappír og bakið í neðstu grind í ofni í 30-35 mín. Hrærið í þegar tíminn er sirka hálfnaður.
Tínið rósmarínlaufin af stilknum og saxið fínt. Setjið kjúklingabringur í skál með söxuðu rósmarín, olíu og salti eftir smekk. Blandið vel saman.
Hitið olíu á pönnu við meðalháan hita. Steikið kjúklingabringurnar í 2,5 mín á hvorri hlið og færið svo í eldfast mót. Bakið í miðjum ofni í um 15 mín eða þar til kjúklingurinn er hvítur í gegn og fulleldaður.
Lækkið hitann á pönnunni í miðlungshita. Sneiðið sveppi. Bætið sveppum út á pönnuna, og steikið þar til þeir fara að mýkjast. Bætið hvítvíni út á pönnuna og látið sjóða niður um helming. Bætið rjóma og sveppakrafti út á pönnuna og látið malla rólega í nokkrar mín þar til sósan þykkist. Smakkið til með meiri sveppakrafti og salti ef þarf.
Pískið 1 msk af ólífuolíu saman við hunang og límónusafa.
Sneiðið epli og skerið rauðlauk eftir smekk í þunna strimla. Setjið klettasalat, epli og rauðlauk í skál og hellið salatdressingunni saman við rétt áður en maturinn er borinn fram. Blandið vel saman.
Njóttu með góðu hvítvíni.