Þegar þið viljið dekra við ykkur eða bjóða í almennilega grillveislu, þá er lambakonfekt algjör lúxus – en samt ótrúlega einfalt að útbúa. Með bragðmikilli Caj P marineringu, köldu rjómaostasósunni og stökkum kartöflum af grillinu fáið þið bæði ljúffengt bragð og góða áferð í hverjum bita. Þetta slær alltaf í gegn! Best af öllu er að hægt er að undirbúa allt fyrirfram – sem gerir þetta þægilegt hvort sem þið eruð að fá gesti í mat eða að grilla úti í ferðalagi.

Uppskrift
Hráefni
Leiðbeiningar
Byrjið á að setja lambakonfektið í poka eða skál og hellið Caj P marineringunni yfir ásamt ólífuolíu. Látið liggja í marineringunni í minnst 4 klst – eða yfir nótt ef þið hafið tíma.
Blandið saman öllum hráefnum í sósuna og smakkið til með salti og pipar. Kælið þar til hún er borin fram.
Sjóðið kartöflurnar í ca. 20-30 mínútur, eða þar til þær eru orðnar mjúkar og tilbúnar.
Merjið kartöflurnar varlega með botni á glasi. Blandið saman ólífuolíu og hvítlauk, penslið yfir kartöflurnar og kryddið með salti og pipar. Stráið parmesan yfir.
Grillið kartöflurnar á álpappír í 8–10 mínútur þar til þær verða stökkar og gullinbrúnar. Stráið ferskri steinselju yfir.
Grillið lambakonfektið á beinum hita í ca. 4–5 mínútur á hvorri hlið, þar til það er fallega brúnað. Færið yfir á óbeinan hita og grillið áfram í 5–10 mínútur, eftir þykkt og smekk. Látið hvíla í 5 mínútur áður en þið berið það fram.
Berið lambið fram með stökkum kartöflum og köldu sósunni – og njótið!