Blaut karamellu kaka

  ,   

apríl 3, 2020

Blaut karamellu kaka sem bráðnar upp í manni og skilur mann eftir í alsælu!

Hráefni

Svampbotn:

6 egg, eggjarauða og eggjahvíta aðskilin

2 dl sykur

1 ½ tsk vanilludropar

1 dl mjólk

3 ½ dl hveiti

1 ½ tsk lyftiduft

¼ tsk salt

Karamellu sósa:

3 dl rjómi

240 g Dumle karamellur (2 pokar)

Krem:

200 g smjör við stofuhita

100 g Philadelphia rjómaostur

400 g flórsykur

1 dl rjómi

Karamellu kurl frá Daim sem skraut

Leiðbeiningar

1Byrjið á því að kveikja á ofninum og stillið á 175°C, undir og yfir. Takið 20×30 cm form (líka hægt að nota 25 cm smelluform) og klæðið það með smjörpappír. Best er að brjóta það alveg ofan í svo það liggi slétt ofan í forminu.

2Aðskiljið eggjarauðuna frá eggjahvítunum, hrærið eggjarauðurnar saman við sykurinn þar til blandan er orðin ljós gul, þykk og deigið myndar “borða” sé þeytarinn tekinn upp og deigið láta leka aftur ofan í skálina.

3Bætið þá vanilludropum út í og hellið mjólkinni út í í mjórri bunu með hrærivélina í gangi, hættið að hræra um leið og allt hefur blandast saman.

4Setjið hveiti, lyftiduft og salt í sér skal og hrærið saman.

5Setjið 1/3 af hveitiblöndunni út í eggjablönduna og blandið varlega saman með sleikju, þegar allt hefur samlagast setjið þá endurtakið þið þar til allt hveitið hefur blandast saman við eggjablönduna.

6Þeytið eggjahvítur þar til stífir toppar myndast og blandið þeim varlega saman við deigið með sleikju í nokkrum hlutum.

7Hellið deiginu ofan í smjörpappírsklædda formið og bakið í 20 mín eða þar til kakan er bökuð í gegn. Leyfið kökunni að kólna á meðan þið gerið karamellu sósuna.

8Útbúið karamellu sósuna með því að setja rjóma og karamellurnar saman í pott, hitið rólega og hrærið varlega í blöndunni með sleikju þar til karamellurnar hafa allar bráðnað saman við rjómann.

9Takið prjón og stingið fjölmörg göt á kökuna alla, hellið karamellunni yfir og reynið að láta sem mest fara ofan í götin.

10Setjið plastfilmu yfir og geymið kökuna inn í ísskáp í u.þ.b. 2 klst (má geyma lengur, t.d. yfir nótt).

11Útbúið kremið með því að hræra smjörið þar til það er orðið létt og ljóst (nánast hvítt). Bætið rjómaostinum saman og því næst flórsykrinum, þeytið vel saman. Hellið rjómanum út á og hrærið þar til kremið verður ofur létt og loftmikið. Setjið kremið yfir kökuna og sléttið úr, skreytið með karamellu kurli.

Uppskrift frá Lindu Ben.

00:00

Aðrar spennandi uppskriftir

Súkkulaði ostakaka með krönsi

Ríkt bragð af Toblerone súkkulaði með Oreo Crumbs í kökunni og Oreo kexi í botninum, toppað með rjóma! Held ég þurfi ekki að reyna að selja þetta neitt mikið frekar…..

Marmarakaka með besta súkkulaði kreminu

Marmarakaka með besta súkkulaði kreminu er svo góð kaka, svolítið þétt og alls ekki of sæt.

Dumle karamellubitar

Mjúkir bakaðir karamellubitar.