Hér er á ferð algjörlega ruglaður smurostur, mínir bragðlaukar segja að hann toppi alla aðra smurosta hvort sem þeir séu vegan eða ekki. Ostinn má smyrja á brauðmeti eða kex eða setja útá pastað. Hann er æðislega mjúkur og fer í raun vel með nánast hverju sem er og hægt að nota hann sem ídýfu fyrir grænmeti eða snakk á góðu kósýkvöldi, já eða eins og á bakkanum á myndinni. Það besta við ostinn er að hann inniheldur fá hráefni og er án allra aukaefna.
Uppskriftin er frekar stór því mér finnst bara ekki taka því að gera minni uppskrift þar sem smurosturinn hverfur fljótt hér heima og það tekur svolítinn tíma að bíða eftir að osturinn verði tilbúinn. En það hefur einnig áhrif að mér finnst oft auðveldara að fá réttu áferðina í blandaranum þegar ég hef uppskriftina stærri en blenderkannan mín er frekar víð. Það er vel hægt að helminga uppskriftina í fyrstu tilraun.
Í uppskriftinni notast ég við Probi mage góðgerla sem eru bragðhlutlausir sem hjálpa ostinum að gerjast og fá þetta súra bragð sem einkennir smurosta. Ég læt ostinn gerjast í þurrkofni en einnig er hægt að leyfa honum að gerjast á hlýjum stað án þurrkofns (t.d. í skáp fyrir ofan ísskápinn, þarf verður oft hlýtt). Það verður aðeins öðruvísi bragð, örlítið súrara bragð.